Veröld kettlingsins

thumbnail_378208

Lesið meðal annars um…

Þjálfið köttinn ykkar
Kötturinn á skólabekknum
Umönnun litla kettlingsins ykkar
Ráð og brögð sem eru góð í hitanum

Veröld kettlingsins

Nýr köttur

– eða kettlingur á heimilinu

Án tillits til þess hvort það sé köttur í óskilum eða köttur af göfugu kyni krefst hann umönnunar og athygli. Munið hvernig ykkur leið þegar þið fluttuð í fyrsta skipti á nýjan stað með nýju fólki. Þetta er dálítið líkt hjá nýja kettinum ykkar.

Áður en þið farið með nýjan kött heim þurfið þið fyrst að útbúa svefnstað fyrir hann. Hann þarf að hafa hlýjan og öruggan stað til að sofa á. Þið getið keypt kattasæng eða körfu í dýrabúðum. Þið getið líka sjálf búið til rúm fyrir nýja gæludýrið ykkar. Þið útvegið ykkur pappakassa, búið til inngang sem er nógu stór fyrir kettlinginn og leggið hreint, mjúkt teppi í botninn.

Gætið þess að það sé hljótt í húsinu þegar þið komið heim með nýja kettlinginn ykkar. Verið ekki undrandi á því að hann sé svolítið feiminn í byrjun. Forvitni hans vinnur fljótt bug á feimninni. Leyfið honum að venjast aðstæðunum og gefið honum tækifæri til að kynnast þeim án þess að þið blandið ykkur of mikið í það.

Það er góð hugmynd að afmarka svigrúm nýja kattarins eða kettlingsins í húsinu fyrstu vikurnar. Á þeim tíma getur hann lært öll venjulegu hljóðin og kynnst því sem gerist í húsinu. Leyfið honum að nálgast gesti þannig að hann öðlist traust og verði félagslyndur. Ef þið eru með önnur gæludýr gefið þeim þá tækifæri til að kynnast þessum nýja fjölskyldumeðlim undir nánu eftirliti.

Þið getið líka verið með tilbúið leikfang fyrir nýja köttinn ykkar þegar þið komið heim með hann. Kettir eru mikið fyrir að leika sér og meta leikföng mikils. Á þann hátt hjálpið þið honum líka að átta sig á nýjum aðstæðum sínum.

Trygging

Munið að tryggja köttinn ykkar. Ykkur finnst þetta e.t.v. vera mikil útgjöld en hugsanlegur reikningur hjá dýralækninum getur líka fljótt orðið hár. Og ef kötturinn ykkar gerir öðrum mein eða veldur óhappi eins og t.d. að velta um hlutum eða rífa þá er líka gott að vera með tryggingu.

Bólusetning eða eyrnamerking

Um leið og þið fáið kött þurfið þið að passa að láta bólusetja hann og eyrnamerkja. Bólusetning ver, auk kattarins, ykkur og fjölskyldu ykkar fyrir hugsanlegum smitsjúkdómum og eyrnamerking auðveldar ykkur að finna köttinn ef hann hverfur. Ef t.d. lögreglan finnur kött á flakki sem er ekki eyrnamerktur afhendir hún næsta dýralækni hann og hann mun í flestum tilfellum lóga kettinum því hann á enga möguleika á að finna eigandann.

Ef kettlingurinn ykkar kynni að tala

Alveg eins og við hafa kettlingar sitt eigið líkamsmál til að segja okkur hvernig þeir hafi það. Hér á eftir eru nokkur dæmi um það hvernig þið getið komist að því í hvernig skapi kettlingurinn ykkar er.

  • Kettlingurinn lyftir höfði og reigir það aftur – einhver er að koma of fast við hann.
  • Hann lygnir aftur augunum og snýr eyrunum til hliðar – kettlingurinn ykkar hefur það gott.
  • Hann gerir odd á eyrun, og snýr þeim aftur og gerir augasteinana litla – það er aðvörun. Kettlingurinn ykkar gæti verið í slæmu skapi þannig að þið ættuð að láta hann eiga sig.
  • Augasteinarnir stækka þrátt fyrir birtuna – kettlingurinn ykkar er hræddur.
  • Hann gerir odd á eyrun og galopnar augun – hann vill leika sér.
  • Hann leggur eyrun aftur, lokar augunum til hálfs og snýr höfðinu lítillega – hann vill semja um frið. Hann er að segja ykkur að hann vilji ekki gera ykkur mein og að hann megi reikna með því sama af ykkur.

Lyktarkerfi kettlingsins ykkar

Kettlingar eru svæðisdýr og gefa frá sér ákveðna lykt (ferómen). Hún gerir þeim kleift að helga sér svæði og halda „eign“ sinni. Þessi sterka lyft er mikilvægur „vegvísir“ í tjáskiptunum við aðra ketti. Lyktin kemur úr kirtlum sem eru á ýmsum stöðum á líkama kettlingsins.

Kettlingar eru hrifnir af snertingu því þannig öðlast þeir öryggi og væntumþykju. Þegar hann t.d. nuddar höfðinu upp að ykkur er það ekki bara til að merkja með lyktarefni heldur líka til að mynda samband sem byggir á líkamlegri snertingu.

Þjálfið köttinn ykkar

Hluti af sjarma kattarins er að honum er sjálfstæði og frelsi eðlislægt.Það er þó hægt að þjálfa kettling í því að sýna hegðun sem hentar þér og heimili þínu.

Hegðunarþjálfun

Kettlingar eru mjög forvitnir og spenntir fyrir að læra. Þið getið með tímanum þróað atferlismynstur sem hentar ykkur. Góð grunnþjálfun gæti t.d. verið að koma í veg fyrir að kötturinn ykkar hoppi upp á eldhúsborðið eða ofninn.

Besta aðferðin við að koma í veg fyrir slæmar venjur er að segja „nei,“ hátt og skýrt. Ef það virkar ekki kemur snögg vatnsbuna úr úðabrúsa honum fljótlega í skilning um hvað þið meinið. Þið megið ALDREI slá kettlinginn ykkar í refsingarskyni. Ef þið gerið það verður kötturinn ykkar styggur og það leiðir til fleiri vandamála.

Klósettþjálfun

Flestir kettir eru hreinleg dýr af náttúrunnar hendi svo þið lendið ekki í miklum vandamálum með að venja kettlinginn ykkar á að nota klósettið sitt.

Þið ákveðið hvar kettlingurinn á að fara á klósettið (í kattabakka með sandi eða á ákveðinn stað úti í garði). Hafið það sem ykkar fyrsta verk á morgnana og síðasta á kvöldin, eftir svefn eða máltíð að fara með hann þangað. Þá kemst hann fljótt að því að þetta sé staðurinn þar sem hann á að fara á klósettið.

Ef það gerist óhapp megið þið aldrei refsa honum. Ákveðið „nei“ nægir til að segja honum að „svona geri maður ekki.“

Umgengni við fólk

Umgengni við fólk er mikilvægur þáttur í þroska kettlingsins. Á þann hátt lærir hann hvernig hann á að haga sér gagnvart fólki, öðrum dýrum og á heimilinu.

Munið að kettlingar eru „veikbyggðir“ og því mega lítil börn aldrei vera ein með þeim.

Upplifun

Til þess að kettlingurinn ykkar verði ekki eins hræddur við hið óþekkta getið þið vanið hann við alls kyns upplifun og hljóð á meðan hann er ungur.

Þið getið hjálpað honum að kynnast nýja heimilinu sínu með því að venja hann við hljóðið í ryksugunni, þvottavélinni, dyrabjöllunni, nýju fólki og almennt nýjum hljóðum. Kettlingurinn ykkar þarf líka að læra á utanaðkomandi hljóð og geltandi hunda. Þið þurfið að passa að þetta gerist smátt og smátt svo þetta beri kettlinginn ekki ofurliði.

Kettir á skólabekknum

Hvað ungur nemur gamall temur. Það er lagður grunnur að því sem flestum köttum líkar eða líkar ekki strax í „vöggu.“

Eftirlætisrétturinn freistar

Margir kattaeigendur geta ekki annað en furðað sig á því að hluti ungra katta vill bara borða ákveðinn mat. Ákveðnir kettir kjósa t.d. helst sérstaka gerð skammtapoka en líta ekki við öðru. Hluti kattaeigenda leitar til okkar og spyr hvort það sé eitthvað í matnum sem geri köttinn háðan honum. Þegar við segjum dýralæknunum okkar í Waltham® þetta eru þeir alls ekki hissa. Þeir segja: „Við getum róað alla kattaeigendur því það eru engin vanabindandi efni í kattamat. Þegar köttur kýs helst sérstaka tegund matar er það vegna þess að hann bragðast sérlega vel.“ Það er ekkert merkilegt við að köttur vilji sérstakan mat umfram annan. Við myndum aldrei ákæra farsælan matreiðslumann fyrir að nota vanabindandi efni í rétti sína bara af því að þeir bragðast vel.

Köttum er ekki sama um hvort það sé fiskur eða kjöt

Sumir kettir vilja fá eftirlætismatinn sinn árið um kring og fara í hungurverkfall ef það er eitthvað annað í skálinni þeirra. Aðrir kettir vilja fá mat með fjórum, fimm mismunandi bragðtegundum. Og svo eru til kettir sem eru ekki mjög matvandir. Hvort sem það er villibráð, fuglakjöt eða fiskur, skammtapokar, dósamatur eða þurrfóður háma þeir það í sig með mikilli ánægju og vilja gjarnan prófa nýtt bragð. Það eina sem maður má ekki gera er að láta þá fá sams konar mat dag eftir dag því eftirlætisrétturinn þeirra er tilbreyting.

Það er samhengi á milli þessi sem köttum líkar og líkar ekki og hegðunar kattarins við matarskálina. Hluti af litlum tígrunum er virkilega fulltrúi hins hreinláta kattar. Matarstaðurinn og skálin eru alltaf tandurhrein. Aðrir veiða matinn upp bita fyrir bita og þá gerist það að hluti af honum lendir á gólfinu án þess að kötturinn skipti sér af því. Aðrir „leggja matinn niður“ eins og lifandi bráð áður en þeir borða hann.

Fjögur fóðrunarráð!

  • Gefið kettinum ykkar litla skammta oftar um daginn
  • Berið matinn fram við stofuhita
  • Blandið gjarnan saman þurrfóðri og blautfóðri
  • Sjáið til þess að kötturinn hafi alltaf ferskt vatn

Ákveðna þekkingu fáum við strax í vöggugjöf

Dýrasálfræðingar og atferlisfræðingar vita eftir miklar rannsóknir að kettir móta hjá sér forgang og óbeit þegar þeir eru mjög ungir. Öll reynsla á þessu mikilvæga stigi í lífinu mótar atferli þeirra þegar fram í sækir. Ef kettlingarnir kynnast bara einu bragði á þessu tímabili er ekki auðvelt að sannfæra þá um að eitthvað nýtt bragðist líka vel. Ef þeir fá hins vegar tækifæri til að safna mismunandi bragðupplifun búast þeir við fjölbreyttum mat í framhaldi af því. Ef læðan sem er með kettlinginn á spena, eða eigandinn, passa ekki upp á það að það sé  hreint á matarstaðnum hvernig á þá kettlingurinn að læra hreinlæti? Hjá kettlingum lærist forgangsröðin og atferlismynstrið fljótt. En það eru ekki bara matarvenjur sem þróast á þessum tíma. Alls kyns áhrif og félagsleg reynsla hefur líka áhrif á persónuleika kattarins.

Litlar loppur á skólabekknum

Kettlingur gengur yfirleitt í skóla hjá móður sinni. Hún kennir kettlingnum allt það sem er mikilvægt í lífinu og hvernig hann eigi að bera sig að til að lifa af: Hvernig hann eigi að þvo sér, brýna klærnar, grafa fljótandi og fastan úrgang og hvernig hann eigi að fá sér lúr eða læðast hljóðlaust að bráð.

Eins og góður kennari varar móðirin líka við hættum og gefur ströng fyrirmæli.Ef við mannfólkið yfirtökum hlutverk kennarans þurfum við að vita að kettlingurinn er móttækilegastur fyrir nýrri reynslu á fyrstu dögum ævinnar.Ef kettlingurinn brýnir klærnar síðar á ævinni á borð- eða stólfæti er við hæfi að segja hátt og skýrt „nei,“ skella saman lófum eða gefa frá sér einhvers konar hljóð. Það er líka gott ef maður vill vara við hættulegum aðstæðum eins og ef kettlingurinn fer of nálægt ofni, eldavél og opinni kamínu. Það þarf að kenna kettlingunum snemma það sem þeir þurfa að læra. Það er þeirra skólatími sem á að búa þá undir lífið.

Flutningur á kettlingnum ykkar

Sjáið alltaf til þess að þið flytjið kettlinginn ykkar í flutningskassa. Leggið handklæði sem er með lyktina að heiman í botninn, þannig verður kettlingurinn rólegri.

Skólafagið „félagslegt atferli“

Strax frá annarri til sjöundu viku lærir kettlingurinn að umgangast aðrar lifandi verur. Þegar hann leikur sér með móður sinni og systkinum, með fólki eða hundum, mótast félagslegt atferli hans. En það eru kattaskólar sem kenna ekki allt fagið. Kettlingur, sem vex upp hjá móður sem lifir frjáls úti í náttúrunni og kemst aldrei í samband við fólk, forðast það líka þegar hann er orðinn fullvaxinn. Sá köttur þarf mjög langan tíma til að venja sig á tilvist fólks og jafnvel þótt honum takist að yfirvinna fælnina þorir hann eingöngu að nálgast þessa einu manneskju.

Kettlingur, sem er alinn upp hjá einni eða fleiri manneskjum, er ekki mótaður á sama hátt. Hann er í góðu sambandi við manneskjuna, ekki bara sem þá sem opnar dósina heldur þá sem er leikfélagi hans og sú sem strýkur honum. Og hvernig er svo samband hans við önnur dýr? Kettlingur, sem hittir ekki annan kött eða hund, mun heldur ekki sem umgangast þá hiklaust þegar hann er fullvaxinn. Þannig sambönd eru hins vegar alveg eðlileg hjá köttum sem alast upp á bóndabæjum. Eitt svín hér og ein kýr þar og kisur innan um þau. Þessir kettir eru ekki hræddir við stór dýr því þeir hafa alist upp með þeim. En þeir myndu hins vegar neyðast til að venjast ryksugunni því þannig hljóð gefa ekki einu sinni lömbin frá sér. Og hvað með ökuferðir?

Það er erfiður þáttur því kettir eru dýr sem vilja taka hlutunum með ró. Að ferðast á miklum hraða og sjá landslagið fljúga fram hjá er ekki það besta sem kötturinn veit. En ef hann venst því sem kettlingur að ferðast í bíl og uppgötvar auk þess að það geti haft sömu merkingu að fara í notalegar ferðir til hinna ýmsu staða hverfur hræðslan fljótt. En ef eitthvað óþægilegt fylgir hverri ferð, t.d. flutningur eða heimsókn til dýralæknis er það ekkert undarlegt að fullvaxinn köttur fyllist kvíða um leið og maður fer með hann að bílnum.

Auðvitað þykir okkur vænt um kettina okkar án tillits til þess hvaða eiginleika og skapgerð þeir hafa. Við reynum að skapa þeim eins notalegt líf og mögulegt er og tökum tillit til þess sem þeir hafa óbeit á og óttast.

Það er ekki mjög auðvelt að breyta atferli fullvaxins kattar því hann hefur tileinkað sér hana fyrir löngu síðan.Það er gott fyrir alla, sem fá sér kettling, að vita hve mikilvægur uppvaxtartíminn er. Þar gefst þeim besti möguleikinn á að láta kettlinginn kynnast margbreytileikanum í lífinu, skref fyrir skref.

Því fleiri tækifæri sem þið getið gefið kettlingnum til að safna áhrifum með augum, eyrum, trýni og tungu og því meira sem framboðið af hljóðum, lykt, bragði og sambandi við aðrar lifandi verur er því forvitnari verður kötturinn þegar hann kynnir sér veröldina. Og því opnari og öruggari verður hann þegar hann er fullvaxinn.

3895404_kettlingur_hvitur_bakgr

Hugsið vel um litla
kettlinginn ykkar

Passið vel upp á feldinn 

Kettir með stutt hár og kettir með lengri hár í feldinum eru almennt sjálfir færir um að halda feldinum hreinum. Meðan þeir snurfusa sig örvar litla, hrjúfa tungan fitukirtlana og þannig vætuverja þeir feldinn og verja hann gegn vatni. Á þá staði á líkamanum sem kötturinn nær ekki til með tungunni notar hann loppurnar sem hann notar til að bursta feldinn. Þegar kötturinn ykkar snurfusar sig lítur það ekki bara vel út heldur er það líka þrifalegt og árangursríkt.Af og til er það líka góð hugmynd að hjálpa kettinum ykkar svolítið með feldinn. Innikettir fara úr hárum allt árið. Með því að bursta feldinn reglulega sleppið þið við að fá hár í teppi og húsgögn og hlífið kettinum ykkar við öllum hárunum sem hann hefur sleikt af sér og geta valdið hárbollum. Önnur góð ástæða fyrir því að bursta kött er sú að flestir kettir njóta þess til fulls, sérstaklega þegar þeir eru orðnir vanir því.

Svona burstið þið köttinn ykkar

Þið þurfið að nota bursta og járnkamb sem er bæði með fínum og grófum tindum. Dýrabúðir selja sérstaka kattabursta en þið getið sjálfsagt notað boginn hárbursta með náttúrulegum hárum sem þið eruð hætt að nota.
Setjið köttinn upp á borð og byrjið á því greiða feldinn með grófa endanum á járnkambinum. Síðan getið þið burstað feldinn vandlega með burstanum. Kött með stutt hár á að bursta eins og liggur í hárunum. Þið getið endað á því að fara í gegnum feldinn með fína endanum á járnkambinum. Burstið bara stutt í fyrsta skiptið þar til kötturinn ykkar hefur vanist þessu. Hrósið kettinum og gefið honum eitthvað gott á eftir. Það er mikilvægt að umhirða feldarins verði notaleg stund hjá ykkur báðum og þegar litli tígurinn ykkar hefur vanist því að láta bursta sig verður hann ánægður með það. Ef til vill upplifið þið það meira að segja að kötturinn ykkar nuddi sig blíðlega upp að hárburstanum jafnvel þegar ykkur finnst að þið hafið lokið ykkur af.Ef kötturinn ykkar er með langt hár þarf að bursta hann oftar svo að feldurinn flækist ekki.

Allt um klær

Útiköttur getur þurft að nota klærnar við margar aðstæður svo það á ekki að klippa þær! Innikettir geta aftur á móti fengið langar klær, sérstaklega eldri kettir sem eru ekki eins virkir og eru þess vegna sjaldan með klærnar úti. Klærnar á þeim geta orðið svo langar að þær hringast og verða inngrónar í gangþófann. Það er þess vegna mikilvægt að þið fylgist með þeim og passið að stytta þær. Það er þó ekkert sem bendir til þess að kettir, sem klærnar hafa verið klipptar á, skerpi þær minna á húsgögnum og þess háttar. Ef þið klippið klærnar á kettinum ykkar þurfið þið að passa að nota klóaklippur. Þið þrýstið á loppu kattarins á milli innsta og ysta gangþófa þannig að klærnar komi fram. Klippið alltaf klóna beint yfir, þ.e.a.s þversum til að forðast að klóin trosni. Innar í klónni eru taugar sem má ekki klippa. Ef þið klippið of mikið af klónum þannig að það fari að blæða þurfið þið ekki að hafa áhyggjur því taugarnar eru upp við gangþófann. Vefjið handklæði utan um köttinn áður en þið klippið klærnar því þannig er auðveldara að halda honum föstum.

Allt um eyru

Þótt eyru katta hreinsi sig sjálf frá náttúrunnar hendi geta þau valdið kettinum ykkar óþægindum svo það er nauðsynlegt að þið lítið á þau einu sinni í viku. Sumir kettir eru með mikinn eyrnamerg og í hann getur sest ryk og óhreinindi sem valda ertingu. Aðrir kettir eru með mjög þurra húð innan á ytra eyranu þannig að húðin flagnar. Þetta getur leitt til þess að kötturinn klórar og krafsar og þá getur myndast sár ef þið grípið ekki inn í.Þið þurfið að vera mjög gætin með eyru kattarins. Hreinsið þau með bómullarpinna en farið ekki lengra inn en svo að þið sjáið alltaf hvað þið eruð að gera. Svolítil matarolía á bómullarpinnanum leysir upp eyrnamerg og önnur óhreinindi og mýkir þurru húðina. Alla aðra umhirðu og skoðun á eyrum kattarins eigið þið að láta dýralækni um.

Allt um augu

Augun segja mikið um þrif kattarins ykkar. Frískur köttur er með hrein og skýr augu. Flestir kettir eru þó öðru hvoru með svolitlar stírur í augnkrókunum, það er mjög algengt. En ef það rennur úr augum kattarins þurfið þið að fylgjast með því að það vari ekki lengi. Hætti það ekki af sjálfu sér er mikilvægt að þið hafið samband við dýralækninn. Notið aldrei sterkari augnskolunarefni en volga saltvatnsupplausn og pappírsþurrku ef þið ætlið að fjarlægja stírur úr augum kattarins ykkar.

Allt um tennur

Kettir fá sjaldan holur í tennurnar en þeir geta fengið tannstein. Tannsteinn sést sem móleitt lag innan á tönnunum og ef það kemur of mikið af honum getur það orðið sársaukafullt fyrir köttinn og gæti að lokum leitt til þess að hann missi tennur. Besta lækningin við tannsteini er að gefa kettinum ykkar virkilegt tækifæri til að nota tennurnar. Þurrfóður er gott til að tryggja góða tannheilsu kattarins ykkar.Það eru ekki margir sem bursta tennurnar í köttunum sínum en það er reyndar mjög góð hugmynd. Það eru til tannburstar og tannkrem fyrir ketti. Þið getið keypt það hjá dýralækninum og þar getið þið látið sýna ykkur hvernig þið eigið að fara að þegar þið viljið bursta tennurnar í kettinum ykkar. Stærsta vandamálið er að fæstir kettir eru til í að láta bursta í sér tennurnar ef þeir hafa ekki verið vandir á það frá því að þeir voru kettlingar.

Hins vegar eru flestir kettir ánægðir með að fá nammi af og til. Fylgist með munni kattarins til að uppgötva tannvandamálin áður en þau verða alvarleg. Rautt og þrútið eða bólgið tannhold þarf dýralæknir að meðhöndla og það þarf að fjarlægja tannstein áður en lögin verða of þykk því annars fær kötturinn ykkar meltingartruflanir og verki. Andremma, slef og erfiðleikar við að borða geta verið merki um að kötturinn ykkar sé með tannvandamál.

Ráð og brögð sem eru góð í hita!

Fyrir „litlu tígrana“ okkar er það Paradís á jörðu að liggja í heitri sólinni  á fallegum sumardegi og teygja alla fjóra fætur út í loftið. En þótt þessi heita árstíð sé yndisleg fylgir henni ákveðin áhætta líka á Íslandi.

Sem fyrrverandi eyðimerkurdýr eiga kettir ekki í miklum erfiðleikum með hitann jafnvel þótt þeir séu með nánast enga svitakirtla og geti því ekki eins og við mannfólkið temprað líkamshitann með því að svitna. Í miklum hita um hásumarið kæla þeir sig með því að taka andköf. Við hraðan andardráttinn gufar munnvatn upp þegar þeir kyngja og þannig kælir kötturinn sig. Ef kettinum finnst of heitt kemur hann sér fyrir á svalari stað. Hann á alltaf að eiga möguleika á því. Auk þess á hann alltaf að hafa aðgang að fersku vatni.

Opnir gluggar bjóða hættunni heim

Þegar hitinn er hæstur á sumrin er rými þar sem loftað er út blessun fyrir inniketti en þið þurfið að gæta þess að það myndist ekki gegnumtrekkur þegar þið loftið út. Forvitnir kettir athuga strax glugga sem er galopinn. Við mælum því með því að þið setjið sérstakt net fyrir hann.  Felligluggar verða auðveldlega gildrur fyrir köttinn sem klifrar upp að rifunni, rennur niður á sléttan rammann og hangir þar. Svona óhöpp geta leitt til þess að kötturinn klemmist, fái marbletti og beinbrotni. Í byggingavöruverslunum getið þið fengið sérstakan öryggisbúnað til að koma í veg fyrir svona óhöpp.

Hiti getur haft áhrif á magann

Sumarhiti og hátt rakastig er mjög heppileg gróðrarstía fyrir bakteríur og þess vegna ber mest á niðurgangi og öðrum sýkingum um hásumarið. Skoðið köttinn ykkar ef hann er ekki með eðlilega matarlyst eða með niðurgang. Ef ykkur finnst kötturinn ykkar daufur og slappur þurfið þið að leita til dýralæknis.

Það er líka mikilvægt að þið geymið opnar dósir með kattamat í kæliskápnum. Ef það er mjög heitt getur maturinn skemmst á nokkrum tímum. Þið eigið samt að hafa matinn við stofuhita þegar þið gefið kettinum ykkar hann.

Árásir úr lofti

Geitungar og býflugur vekja strax veiðieðli kattarins. Það er leikur sem getur verið hættulegur. Stunga er mjög sársaukafull og getur auðveldlega orðið hættuleg ef kötturinn fær hana við munninn eða fær ofnæmisviðbrögð við skordýraeitri og lost í framhaldi af því. Í því tilfelli þurfið þið að hafa strax samband við dýralækni.